Skýrsla yfirstjórnar
Skýrsla yfirstjórnar

SKÝRSLA YFIRSTJÓRNAR

Innri starfsemi og skipulag

Stefnumótun

Ný stefna Hagstofu Íslands fyrir tímabilið 2020-2025 var kynnt í lok ársins að undangenginni undirbúningsvinnu ráðgjafa og starfsmanna. Í þeirri vinnu urðu til mörg umbótaverkefni. Núverandi staða var greind og hliðsjón var höfð af öðrum hagstofum í Evrópu. Breið og virk þátttaka starfsfólks og notenda var höfð að leiðarljósi í stefnumótunarferlinu.

Hröð þróun hefur átt sér stað í heimi tækninnar á síðastliðnum árum. Sú þróun er komin til að vera og er hluti af svokallaðri fjórðu iðnbyltingu. Með henni hefur átt sé stað ör þróun í átt að sjálfvirknivæðingu með öflugri tækni, sem mun hafa víðtæk áhrif á samfélagið. Framtíðin býður því upp á krefjandi áskoranir og tækifæri. Því eru áherslur Hagstofunnar áttaviti til þess að takast á við framtíðina og nýta sér þau tækifæri sem ný tækni veitir.

Niðurstaða stefnumótunar 2020-2025 var að Hagstofan vilji vera framsækin þekkingarmiðstöð sem veitir góða þjónustu og stuðlar að upplýstu samfélagi. Settar voru lykiláherslur og markmið fyrir starfsemina og hafa metnaðarfullar aðgerðir verið mótaðar til þess að ná settum markmiðum. Mikill samhljómur var á meðal starfsmanna um hina nýju stefnu og framtíðarsýn.

Stefnumótun
Einn af mörgum fundum um stefnumótun Hagstofunnar.

Úttekt á upplýsingaöryggiskerfi Hagstofu Íslands

Í maí lauk fimm daga úttekt á upplýsingaöryggiskerfi Hagstofu Íslands. BSI á Íslandi sá um úttektina og kom einn fulltrúi frá þeim í heimsókn. Um var að ræða heildarúttekt á kerfinu. Úttektin gekk vel og í lok júní fékk Hagstofan formlega endurnýjaða vottun til þriggja ára sem staðfestir að öll starfsemi Hagstofu Íslands er samkvæmt stjórnkerfi upplýsingaöryggis, ISO 27001.

Niðurstöður könnunar um stjórnun og starfsemi Hagstofunnar

Á árinu var könnun lögð fyrir starfsfólk Hagstofunnar þar sem starfsmenn voru beðnir um að meta stjórnendur, frá deildarstjóra til hagstofustjóra. Könnunin gaf góða mynd af stjórnun innan stofnunarinnar. Svarhlutfall var mjög hátt.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að stjórnendur Hagsfofunnar standi sig vel á flestum sviðum. Flokkurinn „starfsandi“ var að meðaltali með hæstu einkunnina í könnuninni eða 3,85 á skalanum 1 - 5. Spurningarnar í þessum flokki sneru að því að hversu miklu marki stjórnendur leggja áherslu á að starfsfólki líði vel í starfi og að hversu miklu marki þeir leggja sitt af mörkum til þess að skapa jákvæðan starfsanda.

Næst þar á eftir kom „stjórnunarhæfni“ með einkunnina 3,69. Í flokknum „Yfirsýn og stjórnun verkefna“ var meðaltalið 3,67. Þar kom best út áhersla á gott samstarf á milli deilda og sviða. Flokkurinn „markmið og miðlun upplýsinga“ kom svipað út og flokkarnir hér að ofan eða með 3,65 í meðaleinkunn.

Lægsta einkunn fékk flokkurinn „stuðningur og starfsþróun“ eða 3,55. Þar má helst nefna að stjórnendur Hagstofunnar mega vera duglegri við að fylgja eftir ákvörðunum sem teknar eru í starfsmannasamtölum.

Niðurstöðurnar sýna að heilt yfir standa stjórnendur sig vel en þó eru greinilega tækifæri til að gera betur. Ráðgjafi fundaði með hverjum stjórnanda og fór yfir niðurstöðurnar.

Samningur um kolefnisjöfnun

Hagstofan og Kolviður gerðu með sér samning á árinu um að binda kolefni vegna losunar sem hlýst af starfsemi Hagstofunnar. Kolefnisbindingin á sér stað í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt sem Kolviður hefur umsjón með.

Alls var kolefnisspor af starfsemi Hagstofunnar áætlað um 108 tonn hitunarígilda (koltvísýringsígilda) eða um eitt tonn á hvern starfsmann. Þar af eru 67% vegna flugferða, 27% vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu og afgangurinn vegna orkunotkunar, sorps o.fl.

Hagstofa Íslands setti sér umhverfisstefnu á árinu með það að markmiði að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið, svo sem með minni notkun aðfanga og með kolefnisjöfnun.

Ljósmynd nr. 4 – Kolefnisjöfnun
Frá undirritun samnings um kolefnisjöfnun Hagstofunnar, frá vinstri: Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri og Einar Gunnarsson, skógfræðingur frá Kolviði.

Skipulagsbreytingar

Um mánaðamótin október/nóvember var móttakan færð frá rekstrarsviði til sviðs stjórnsýslu og samstarfs en móttakan verður í umsjá samskipta- og miðlunardeildar.

Ásta
Ásta Guðjónsdóttir hefur starfað í móttökunni um langt árabil.

Þróun

Heimsmarkmið

Á árinu var unnið ötullega að því að meta innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en heimsmarkmiðin eru að auka velsæld, meðal annars með því að eyða fátækt, bæta heilsu, auka aðgerðir í umhverfismálum ásamt því að stuðla að friði og réttlæti.

Tölfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint safn 244 mælikvarða sem ætlað er að meta árangur einstakra ríkja, sem og heimsbyggðarinnar allrar, í innleiðingu á þeim 17 yfirmarkmiðum og 169 undirmarkmiðum sem samþykkt voru af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Ætlast er til að heimsbyggðin hafi náð markmiðunum fyrir árið 2030.

Hagstofa Íslands heldur úti tölfræðigátt þar sem nálgast má tölfræðilegar upplýsingar sem sýna hvernig íslensku samfélagi miðar áfram við innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Í lok ársins mátti finna upplýsingar um rúmlega 100 mælikvarða. Á Hagstofunni verður áfram unnið að gagnaöflun fyrir þá mælikvarða sem enn vantar upp á en þeir verða birtir jafnóðum og gögn berast.

Endurskoðun á húsnæðislið vísitölu neysluverðs

Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs var til skoðunar á árinu í tengslum við störf nefndar sem forsætisráðuneytið skipaði sem hluta af framkvæmd lífskjarasamninganna. Hagstofan hefur liðsinnt erlendum sérfræðingi sem fenginn var til ráðgjafar í þeim efnum en starf nefndarinnar er nú þegar langt á veg komið.

Uppruna- og ráðstöfunartöflur líta dagsins ljós

Svokölluðum uppruna- og ráðstöfunartöflum vegna ársins 2015 var skilað til Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á árinu. Þetta er töluverður áfangi við gerð þjóðhagsreikninga og hluti af lögbundnum skilaverkefnum innan evrópska tölfræðisamstarfsins. Mikill ávinningur liggur í því að byggja þjóðhagsreikninga á uppruna- og ráðstöfunartöflum og verður aukin áhersla lögð á þá vinnu í framhaldinu.

Þjóðhagsreikningar
Gluggað í tölur.

Bætt vinnumarkaðstölfræði og vinnumarkaðsrannsókn

Unnið var að bættri vinnumarkaðstölfræði á árinu með áherslu á aukið innra samræmi í upplýsingagjöf. Einnig var áhersla á að vinna að umbótum á vinnumarkaðsrannsókn vegna innleiðingar á nýrri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem fyrirséð er að brot verði á tímaröðum. Unnið var að umbótum á mælingum á vinnutíma með rannsóknarstyrk frá Eurostat. Styrkurinn felur meðal annars í sér að lagðar voru fyrir aukaspurningar um vinnutíma í vinnumarkaðsrannsókn haustið 2019 til að fá betri upplýsingar um unnar stundir. Samhliða var einnig unnið að innri umbótum í því skyni að auka hagkvæmni og minnka áhættu í rekstri.

Hagtölur um vinnuafl þróaðar

Unnið var að þróun á hagtölum um vinnuafl samkvæmt skrám sem birtust á síðasta ári með það fyrir augum að geta birt aukna sundurliðun miðað við árið 2019 en talnaefnið býður meðal annars upp á möguleika á að skoða hlutfall innflytjenda af fjölda starfandi eftir landshlutum. Niðurstöður ná til allra einstaklinga með atvinnutekjur sem eru gefnar upp til staðgreiðslu. Það eru laun vegna vinnu, fæðingarorlofsgreiðslur og reiknað endurgjald. Fjöldi starfandi er flokkaður eftir kyni, aldri, bakgrunni, atvinnugreinum og staðsetningu lögheimilis.

Tölfræði um börn og ungmenni

Unnið var að frekari öflun upplýsinga um stöðu barna á Íslandi í samstarfi við umboðsmanna barna. Unnið var nýtt talnaefni sem varpar ljósi á fjölda barna sem missir foreldri ár hvert. Hagstofa Íslands birti í fyrsta sinn upplýsingar um fjölda ungmenna sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun (e. Not in Employment, Education or Training, NEETS) en bent hefur verið á að þessi hópur geti verið í áhættu vegna félagslegrar einangrunar og skorts á efnislegum gæðum.

Félagsvísar

Félagsmálaráðuneytið og Hagstofa Íslands hafa frá árinu 2012, að frumkvæði Velferðarvaktarinnar, safnað og birt árlega ýmiss konar samfélagslegar mælingar undir yfirskriftinni félagsvísar. Í ársbyrjun 2019 voru birtar niðurstöður endurskoðunar á félagsvísum þar sem nánar var gerð grein fyrir því hvað vísarnir eigi að mæla samhliða því að gæði mælinga voru metin og helstu hugtök útskýrð í samhengi við þróun á alþjóðlegum vettvangi. Birtir voru ítarlegir félagsvísar um hag innflytjenda á Íslandi í janúar 2019.

Tölfræði um lífskjör

Umbætur á framkvæmd og úrvinnslu lífskjararannsóknar voru gerðar með það fyrir augum að straumlínulaga rannsóknina. Merkja mátti niðurstöður þessarar vinnu með útgáfum á fjölbreyttu talnaefni um lífskjör í desember 2019.

Þróun nýrra hagtalna um húsnæðismál

Þróaðar voru nýjar hagtölur um húsnæðismál. Gert var mat á skráargögnum og tillögur að umbótum sem meðal annars felast í tíðari og ítarlegri gagnasöfnun. Samráð var haft við helstu notendur og hagsmunaaðila. Birtar voru hagtölur um húsnæðismál byggðar á gögnum lífskjararannsóknar.

Umbætur á vinnslu menntatölfræði

Umbætur voru gerðar á gagnavinnslu til að geta staðið við tímanleg gagnaskil vegna lagalegra skuldbindinga á sviði menntatölfræði. Umbætur skiluðu tímanlegri útgáfum á leikskóla- og grunnskólagögnum en einnig auknum tímanleika í gögnum brautskráningar.

Rannsókn á nýjungum í rekstri fyrirtækja

Á árinu 2019 var gerð rannsókn á nýjungum í rekstri fyrirtækja en rannsóknin er framkvæmd annað hvert ár. Niðurstöður hafa verið birtar en þær gefa vísbendingar um samkeppnishæfni atvinnugreina. Þá var framkvæmd rannsókn á notkun fyrirtækja á upplýsingatækni en rannsóknirnar báðar fylgja aðlþjóðlegum stöðlum og aðferðarfræði OECD og Eurostat.

Árni Fannar
Málin rædd og krufin.

Rannsókn á útflutningshneigð og samkeppnishæfni atvinnugreina lokið

Á árinu 2019 lauk vinnu við rannsóknarverkefni með norrænum hagstofum um útflutningshneigð og samkeppnishæfni atvinnugreina. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa verið birtar og hlotið mikla athygli en áfram verður unnið að frekari birtingum úr þeirri vinnu.

Tölfræði um ferðaþjónustu

Vaxandi áhugi hefur verið á tölfræði um ferðaþjónustu með stórlega auknu vægi atvinnugreinarinnar. Ýmis tölfræði hefur verið þróuð og komið til birtingar á árinu 2019 og var sérstaklega unnið að því að bæta við frekari birtingum á mánaðarlegri tölfræði um ferðaþjónustu, s.s. mánaðarlegum hagvísum ferðaþjónustu. Mánaðarlega eru birtar áætlanir um heildarfjölda gistinátta á öllum tegundum gististaða en þar er gengið lengra en kröfur Evrópureglugerðar nr. 692/2011 segja til um. Hér bætast við hefðbundnar og lögbundnar útgáfur um seldar gistinætur í gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður og gistinætur á öðrum stöðum en áður hafði verið fangað í tölfræði. Þessi nýbreytni hefur svarað mikilli eftirspurn sem var til staðar um gistingu ferðamanna, en í örum vexti ferðaþjónustunnar annaði framboð hótela og hefðbundinna gistiheimila ekki þeim mikla straumi ferðamanna sem kom til landsins.

Ferðaþjónusta
Vaxandi áhugi hefur verið á tölfræði um ferðaþjónustu með auknu vægi atvinnugreinarinnar.

Bráðabirgðatölfræði um losun CO2 ígilda

Á árinu 2019 var unnið að uppbyggingu á líkani til framleiðslu og birtingar á bráðabirgðatölfæði um losun CO2-ígilda. Var þetta gert til þess að koma til móts við vaxandi áhuga á tímanlegum upplýsingum og þannig auðga umræðuna. Líkanið gerir mögulegt að birta bráðabirgðatölur með mjög lítilli töf. Strax á fyrsta mánuði hvers árs er nú hægt að birta fyrstu tölur um losun ársins á undan. Þannig voru í janúar 2020 birtar upplýsingar um losun CO2-ígilda helstu atvinnugreina og heimila 2019.

Rannsóknir og hagskýrslur

Talnaefni um laus störf

Árið 2019 birti Hagstofa Íslands í fyrsta sinn talnaefni um laus störf á íslenskum vinnumarkaði byggt á ársfjórðungslegri starfaskráningu stofnunarinnar á meðal lögaðila þar sem spurt er um áform þeirra um ráðningar. Um er að ræða rannsókn sem framkvæmd er hjá öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (e. Job Vacancy Survey) á grundvelli löggjafar þar að lútandi. Í kjölfar samráðs við helstu notendur á Íslandi verður safnað ítarlegum upplýsingum sem nýst geta til þess að varpa ljósi á laus störf eftir atvinnugreinum og störfum.

Launamunur innflytjenda

Unnið var að rannsókn á launamun innflytjenda í samstarfi við félagsmálaráðuneyti og innflytjendaráð og niðurstöður birtar í mars 2019.

Niðurstöður úttektar á launavísitölu

Í ársbyrjun 2019 birtust niðurstöður úttektar á launavísitölu í lokaskýrslu nefndar um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga. Jafnframt var birt ítarleg greinargerð um opinbera launatölfræði í apríl 2019. Í desember 2019 birti Hagstofan greinargerð með niðurstöðum greiningar á áhrifum starfsaldurs og menntunar á launavísitölu. Útgáfan var mikilvægur áfangi í umfangsmikilli vinnu á Hagstofunni við bætta skjölun og rannsóknum á launavísitölu. Niðurstöður rannsókna og úttekt óháðs erlends sérfræðings á aðferðum launavístölu gáfu ekki tilefni til þess að breyta útreikningi vísitölunnar.

Vísitölu launakostnaðar skilað til Eurostat

Vísitölu launakostnaðar (e. Labour Cost Index) var skilað til Eurostat samkvæmt áætlun og er vísitalan birt á vef stofnunarinnar. Unnið var að frekari skjölun og sannprófun á aðferðum við útreikning á unnum stundum sem lagðar eru til grundvallar vísitölu launakostnaðar.

Menningarmál

Framboð á hagtölum um menningu var aukið. Lögð var áhersla á samráð við notendur og farið í kynnisferð til málsmetandi norrænna aðila. Fyrstu birtingar á hagrænum mælikvörðum menningar voru í desember þegar birtar voru upplýsingar um starfandi við menningu. Unnið var að gagnaskilasamningum við ýmsa aðila sem búa yfir gögnum sem nýst geta við gerð nýrra hagtalna. Jafnframt voru birtar nýjar tölur um samtök listamanna. Þá voru lögð drög að nýrri úrtaksrannsókn á meðal almennings á menningarneyslu og tómstundum.

Skýrsla um sveitarstjórnarkosningar

Gefin var út kosningaskýrsla um sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fóru 26. maí 2018 þar sem ítarlega var gerð grein fyrir niðurstöðum og framkvæmd kosninganna.

Upplýsingatækninotkun heimila og einstaklinga

Rannsókn á upplýsingatækninotkun heimila og einstaklinga var framkvæmd árið 2019. Rannsóknin, sem hefur verið framkvæmd hérlendis, með hléum frá árinu 2002 byggir á samevrópskum aðferðum sem gerir það að verkum að niðurstöðurnar eru samanburðarhæfar yfir tíma og milli landa á Evrópskra efnahagssvæðinu. Gögnum var skilað í árslok 2019 og birtust fyrstu niðurstöður fyrir 2019 á vef Eurostat í janúar 2020.

Fjöldi lífeyrisþega

Birtar voru upplýsingar um fjölda lífeyrisþega í júní 2019 sem náðu til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris auk örorkustyrks. Fram kemur skipting eftir greiðendum, þ.e. almannatryggingum og samtryggingardeildum lífeyrissjóða. Jafnframt var gerð grein fyrir fjölda heimila sem fengu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum og þjónustu sveitarfélaga við fólk með fötlun.

Tölfræði um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi og landamæraeftirlit

Unnið var að talnaefni um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi og landamæraeftirlit sem sent var til Eurostat.

Lykiltölur um fjölda og lýðfræði fyrirtækja

Á síðustu árum hafa í áföngum verið birtar lykiltölur um fjölda fyrirtækja og helstu rekstrarupplýsingar atvinnugreina (e. Structural business statistics; SBS) í samræmi við Evrópureglugerð 259/2008. Gögnin eru samanburðarhæf við önnur Evrópulönd og þeim skilað til Eurostat. Samhliða er framleidd tölfræði um lýðfræði fyrirtækja (e. Business Demography) og skilað til Eurostat. Sömu upplýsingar eru birtar á vef Hagstofunnar.

Tölfræði um rekstrar- og efnahagsyfirlit atvinnugreina

Árlega eru birtar heildstæðar tölur yfir rekstrar- og efnahagsyfirlit atvinnugreina. Tölur hafa nú verið birtar aftur til ársins 2002 til og með 2018. Unnið hefur verið að því að auðga þessa tölfræði í samvinnu við helstu notendur hennar og svara þannig áfram spurn samfélagsins eftir betri tölfræði um atvinnugreinar. Á árinu 2019 hefur verið unnið sérstaklega í frekara niðurbroti á rekstrarupplýsingum og upplýsingum um fjárfestingar fyrirtækja og atvinnugreina.

Skammtímahagvísar atvinnugreina

Á árinu 2019 var unnið í frekari birtingum á skammtímatölfræði og skammtímahagvísum atvinnugreina (e. Short Term Statistics; STS) en vaxandi áhugi hefur verið á tímanlegum upplýsingum um þróun atvinnugreina. Bæði var unnið að tölfræði sem byggir á Evrópureglugerð 1165/98 sem og því að svara spurn samfélagsins eftir skammtímatölfræði. Á síðustu árum hefur skammtímatölfræði atvinnugreina verið stórlega bætt með nýjum útgáfum, s.s. um fjölda launagreiðenda og launþega eftir atvinnugreinum og skammtímahagvísum ferðaþjónustu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðartölfræði

Áhugi hefur verið á frekari framleiðslu á rekstrar- og efnahagstengdum upplýsingum um undirgreinar í landbúnaði hjá innlendum hagsmunaaðilum. Á árinu 2019 lauk síðasta hluta þeirrar uppbyggingar þegar rekstrar- og efnahagsyfirliti fyrir garðyrkjurækt var bætt við þá tölfræði sem fyrir hafði verið byggð upp. Eru nú árlega birtar upplýsingar um rekstur og efnahag sauðfjárbúa, kúabúa og annarra nautgripabúa ásamt garðyrkju eftir landsvæðum og stærð. Samhliða þessu er framleidd ýmis konar tölfræði um landbúnað til að koma til móts við alþjóðlegar og innlendar skuldbindingar.

Umhverfistölfræði og umhverfisreikningar

Mikið starf var unnið á síðasta ári við að byggja upp umhverfisreikninga í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Tölfræðin er margþætt en byrjað var á uppbyggingu á tölfræði um losun gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands. Fyrstu birtingar á þeim gögnum voru síðla árs 2018. Á árinu 2019 var unnið að innleiðingu á tölfræði um orkuflæði, efnisflæði og útgjöldum og fjárfestingu til umhverfisvænna þátta. Þegar hefur tölfræði þessara þriggja þátta sem unnið var 2019 verið skilað til Eurostat og unnið er að frekari birtingum á vef Hagstofu Íslands.

Erlent samstarf og heimsóknir

ONS heimsækir Hagstofuna

Um miðjan febrúar heimsótti hópur frá ONS, hagstofu Bretlands, Hagstofuna til þess að kynna sér hagskýrslugerð á Íslandi og utan ESB.

Ráðstefna um framtíðarskipan vinnumála og breytingar á vinnumarkaði haldin í Hörpu

Ráðstefna um framtíðarskipan vinnumála og breytingar á vinnumarkaði (Future of Work) var haldin í Hörpu dagana 4. og 5. apríl. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina og Alþjóðavinnumálastofnunina (International Labour Organization – ILO) í tilefni af því að öld var liðin frá því að stofnunin tók til starfa. Starfsmaður frá Hagstofunni flutti erindi á ráðstefnunni.

Norrænn veffundur

Samskipta- og miðlunardeild skipulagði og hélt utan um norrænan veffund sem haldinn var á Hagstofunni þann 11. apríl. Þátttakendur voru 14 og litu mörg áhugaverð erindi dagsins ljós á fundinum.

Norrænn veffundur
Norrænn veffundur í fullum gangi.

Heimsókn frá hollensku hagstofunni

Sérfræðingar frá aðferðafræðideild hollensku hagstofunnar heimsóttu Hagstofuna í apríl. Í heimsókninni kynntu þeir þróunarverkefni sem tengist hagnýtingu á R-hugbúnaði við gagnaprófun en mikil sóknarfæri eru í sjálfvirknivæðingu við hagskýrslugerð. Hagstofa Hollands leiðir samstarfsnet evrópskra hagstofa (ESSnet) á þessu sviði og deildu þeir reynslu sinni af því auk þess að vera með sýnikennslu.

Heimsókn Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti Hagstofuna þann 2. maí og kynnti hún sér starfsemina og ýmis verkefni stofnunarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir
Frá heimsókn Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Norrænn fundur um jafnvirðisgildi

Dagana 9. og 10. maí var haldinn norrænn fundur um jafnvirðisgildi, eða purchasing power parity (PPP) í húsakynnum Hagstofunnar. Um er að ræða árlegan fund Norðurlandaþjóðanna þar sem framkvæmd og aðferðarfræði PPP verkefnisins er rædd í víðu og þröngu samhengi. Að þessu sinni voru Hollendingar þátttakendur og allt stefnir í að þeir verði það áfram.

Norrænn fundur um jafnvirðisgildi
Þátttakendur á norrænum fundi um jafnvirðisgildi.

R-námskeið haldið í Úkraínu í samstarfi við EFTA

Í júní 2019 héldu tveir starfsmenn Hagstofunnar til Kænugarðs þar sem þeir kenndu starfsmönnum hagstofa EECCA-landanna hvernig hægt er að nota tölfræðiforritið R í opinberri hagskýrslugerð. Námskeiðið er reglulegur hluti af endurmenntunarnámskeiðum sem standa sérfræðingum evrópska hagskýrslusamstarfsins til boða.

Fundir með sérfræðingum frá hagstofu Portúgal

Tveir sérfræðingar frá upplýsingatæknisviði hagstofu Portúgal heimsóttu Hagstofuna þann 22. og 23. júlí og kynntu þeir meðal annars og ræddu niðurstöður sem tengjast gagnaprófunum þeirra. Hagstofan kynnti svo gestunum hvernig starfsfólk hennar nýtir R-hugbúnaðinn við hagskýrslugerð, gagnaprófun og fleira.

Norræna tölfræðingamótið í Helsinki

Norræna tölfræðingamótið var haldið í Helsinki dagana 26. - 28. ágúst. Mótið er haldið þriðja hvert ár og skiptast Norðurlöndin á að halda það. Markmiðið með tölfræðingamótinu er að tölfræðingar frá Norðurlöndunum geti komið saman og rætt nýjustu þróun í hagskýrslugerð. Mótið í Helsinki var að þessu sinni óvenjulegt fyrir þær sakir að Eistland tók einnig þátt í mótinu en talsverð samvinna hefur verið á milli Eista og Norðurlandanna í hagskýrslugerð á undanförnum árum. Þátttakendur voru um 400 í heildina og þar af 40 frá Hagstofunni. Þema mótsins var „Staðreyndir fyrir framtíðina“ (e. Facts for future) og voru sex fyrirlesarar frá Hagstofunni með erindi á mótinu. Hagstofan hélt síðast Norræna tölfræðingamótið árið 2007 en tekur núna aftur við keflinu og verður næsta mót haldið á hennar vegum í Reykjavík árið 2022.

Ólafur Hjálmarsson tekur við keflinu
Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri tekur við keflinu en Norræna tölfræðingamótið verður haldið á Íslandi árið 2022.

Norrænn fundur um hönnun og prófanir spurningalista

Norrænn fundur um hönnun og prófanir spurningalista var haldinn á Hagstofunni 24.– 25. október. Þátttakendur voru 12 talsins frá hagstofum Norðurlandanna, en hagstofurnar skiptast á að halda fundina með 18 til 24 mánaða millibili. Fyrsta hringnum er nú lokað þar sem þetta var fimmti fundur vinnuhópsins.

Ýmis áhugaverð mál voru kynnt og rædd á fundinum og ljóst er að allar hagstofurnar takast á við sambærilegar áskoranir í sínum spurningalistarannsóknum. Var meðal annars rætt um hönnun gagnasafnana þar sem beitt er blönduðum söfnunaraðferðum, leiðir til þess að bregðast við lækkandi svarhlutföllum, hvernig best sé að hanna rannsóknir þar sem svarbyrði er mikil, svo sem í dagbókarrannsóknum á útgjöldum og tímanotkun, og um áskoranir tengdar þeim kerfum sem notuð eru við framkvæmd rannsókna.

Hönnun og prófanir spurningalista
Frá fundi um hönnun og prófanir spurningalista.
Frá hagstofustjóra Fjármál og rekstur