Notendur
Notendur

Hagstofan leggur mikla áherslu á að eiga góð samskipti við notendur hagtalna. Á árinu var farið í átak í að koma á reglubundnum fundum notendahópa. Fundað var með öllum notendahópum en þeir eru 6 talsins. Leitast var eftir því að fá endurgjöf á það hvað notendur væru ánægðir með og hvað þeir teldu að mætti betur fara. Þá gátu notendur greitt umbótahugmyndum atkvæði og þannig haft áhrif á forgangsröðun verkefna á Hagstofunni. Notendur veittu einnig endurgjöf á hvað hefði gengið vel að þeirra mati og því stuðla notendafundirnir að því að bæta þjónustu Hagstofunnar. Mjög góð mæting var á fundina og fram kom fjöldi umbótahugmynda. Á miðju ári 2020 verður tekið saman fréttabréf um framgang helstu umbótahugmynda hvers notendahóps og miðlað til hópsins þannig að notendur geti fylgst með því hvernig verkefnum miðar. Endurgjöf notenda var jafnframt mikilvægt innlegg í stefnumótun Hagstofunnar á árinu.

Notendur
Umbótahugmyndir ræddar á notendafundi.

Ráðgjafanefndir og faghópar

Hagstofan á einnig í samtali við hópa sérfræðinga um afmörkuð málefni, svo sem ýmsa aðferðafræði, eða um afmörkuð málefnasvið eins og til að mynda verðvísitölur. Með þessum hætti getur Hagstofan leitað ráða hjá færustu sérfræðingum varðandi ýmis málefni og fengið rýni á hin ýmsu álitaefni sem upp koma við hagtölugerð. Fundað var í öllum ráðgjafanefndum og faghópum Hagstofunnar á árinu fyrir utan ráðgjafanefnd um aðferðafræði en hún var endurskipuð á árinu.

Rannsóknasamstarf

Rannsóknaþjónusta Hagstofu Íslands afgreiddi á árinu 2019 sex umsóknir um aðgang að örgögnum en í árslok voru fjórar slíkar umsóknir enn í ferli. Einnig gerðist Hagstofan þátttakandi í rannsóknarverkefni um neyslu heimilanna og neysluhegðun í samstarfi við hagfræðingana Emi Nakamura, Jón Steinsson og Jósef Sigurðsson. Einn meistaranemi lauk lokaverkefni samkvæmt samstarfssamningi Hagstofu Íslands og hagfræðideildar Háskóla Íslands. Þá átti rannsóknaþjónustan aðkomu að verkefni um þróun vísa um hagsæld og lífsgæði og Þjóðaröryggisvísa.

Nánar má lesa um notendasamstarf Hagstofunnar á vefsíðu stofnunarinnar um Samstarf við notendur.

Fjármál og rekstur Gagnasöfnun