Frá hagstofustjóra
Frá hagstofustjóra

Ársskýrsla Hagstofu Íslands kemur út við óvenjulegar aðstæður þar sem heimsfaraldurinn Covid-19 hefur haft mikil áhrif á allt samfélagið og þar með starfsfólk stofnunarinnar og þá sem veita henni upplýsingar. Hagstofan varð því að forgangsraða verkefnum og með samstilltu átaki starfsmanna hafa allar reglubundnar útgáfur stofnunarinnar haldist og engu þurft að fresta eða fella niður vegna faraldursins. Þar að auki var gefin út tilraunatölfræði og ný tölfræði til að svara kalli notenda vegna hans. Áhugavert er að aðeins örfáar hagstofur í Evrópu komust hjá því að fresta lögbundnum útgáfum vegna áhrifa faraldursins og er Hagstofa Íslands ein þeirra.

Árið 2019 einkenndist af auknum umsvifum og talsverðum umbótum þar sem nýjum verkefnum var hrint í framkvæmd. Eins og sjá má af skýrslu yfirstjórnar var ráðist í að auka framboð nýrra hagskýrslna og birtar greinargerðir um aðferðarfræði mikilvægra hagtalna. Tókst það með samstilltu átaki starfsmanna og stjórnenda og vegna þess að skipulagsbreytingar sem gerðar voru árið 2018 skiluðu sér að fullu á nýju ári. Seinni hluta árs 2019 var unnið að stefnumótun Hagstofunnar fyrir næstu ár undir góðri stjórn ráðgjafa sem fengnir voru til þess að leiða verkefnið. Lögðu starfsmenn fram mikla vinnu og tóku virkan þátt í stefnumótuninni auk þess sem leitað var til notenda sem einnig lögðu sitt af mörkum.

Mikil tækifæri og áskoranir eru í hagskýrslugerð og tæknibreytingar örar. Þarfir notenda breytast, kröfur eru meiri og upplýsingaóreiða, eða –ofgnótt, gerir notendum erfitt um vik. Staðlar, gagnsæ aðferðarfræði og lýsigögn eru því nauðsyn þeim sem nota upplýsingar og vilja að þær séu sambærilegar í gegnum tíma og á milli ríkja eða hópa. Á sama tíma og kröfur eru um aukna tíðni, fleiri hagtölur og meiri gæði er jafnframt krafa um að auka framleiðni og afköst. Stefnumótun Hagstofunnar fyrir næstu ár tekur mið af því.

Hagstofan hefur lagt áherslu á að bæta miðlun upplýsinga með því að ráða sérfræðinga með þekkingu á því sviði og nýta betur samfélagsmiðla en áður. Hefur það skilað sér í meiri sýnileika og markvissari útgáfu frétta og tilkynninga.

Í stefnumótun Hagstofunnar eru leiðarljósin þrjú: þjónusta, áreiðanleiki og framsækni. Lögð er áhersla á að þekkja þarfir notenda og verða við þeim, með því að auka virði hagtalna í samræmi við kröfur og efla þekkingu og tæknilega innviði. Áhersla er á sjálfvirkni, samræmingu í aðferðum, högun og uppbyggingu gagna, nýsköpun og bætta stjórnun.

Hagstofan hefur á að skipa góðu og reynslumiklu starfsfólki sem hefur fjölbreyttan bakgrunn bæði í menntun og starfi. Hefur það tileinkað sér góða tæknilega þekkingu og komið með nýja þekkingu inn á stofnunina sem hefur eflt hagskýrslugerðina og vinnustaðinn. Í stefnumótun Hagstofunnar er lögð áhersla á að styðja við öflun þekkingar og að viðhalda henni auk þess að hvetja til nýsköpunar.

Hagstofan aflar mikilvægra gagna úr stjórnsýsluskrám og með beinu rafrænu sambandi við fyrirtæki. Einnig er leitað til fyrirtækja og einstaklinga með könnunum. Án jákvæðra viðbragða fyrirtækja og einstaklinga og skilnings þeirra á mikilvægi opinberrar hagskýrslugerðar væri erfitt, eða jafnvel ómögulegt, að vinna margar þeirra hagskýrslna sem alþjóðlegir samningar og innlendar þarfir krefjast. Hagstofan þakkar fyrirtækjum og almenningi fyrir skilning og velvilja þegar kemur að gagnaöflun.

Segja má að einkum þrennt sé forsenda fyrir leiðarljósi Hagstofunnar um upplýst samfélag; öflugt starfsfólk, hátt tæknistig og velvilji fyrirtækja og einstaklinga við að veita upplýsingar.

Undirskrift hagstofustjóra

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri

Skýrsla yfirstjórnar