Miðlun til notenda
Miðlun til notenda

Hagstofa Íslands gefur út fjölda fréttatilkynninga í hverjum mánuði. Fréttatilkynningar geta haldist í hendur við uppfærslu á töflum en einnig útgáfu Hagtíðinda eða annað fréttatengt efni frá stofnuninni. Í flestum tilvikum er tilkynning gefin út bæði á íslensku og ensku.

Árið 2019 sendi Hagstofan frá sér samtals 730 tilkynningar. Þar af voru 526 fréttatilkynningar og 204 uppfærslur á talnaefni.

Tegund Íslenskar Enskar Samtals
Fréttir 270 256 526
Uppfærslur talnaefnis 102 102 204
Samtals 372 358 730

Íslenskir fjölmiðlar hafa lengi verið duglegir við að miðla fréttatilkynningum Hagstofunnar áfram til lesenda, hlustenda og áhorfenda og er það mun algengara en við sjáum í nágrannalöndunum. Það þýðir að áhugi á því efni sem Hagstofan gefur út er almennt meiri hér á landi en í öðrum löndum. Athyglisvert er í því ljósi að Hagstofan gaf út samtals 372 íslenskar fréttatilkynnar og uppfærslur á síðasta ári sem innlendir fjölmiðlar gerðu 2.390 fréttir um. Hér er því augjóslega um margföldunaráhrif að ræða.

Súlurit 1
Fréttir sem tengjast Hagstofunni 2019.

Vefur

Vefur Hagstofunnar, hagstofa.is, er helsti samskiptamiðill stofnunarinnar. Árið 2019 var mest aðsókn að síðunni um helstu vísitölur að forsíðunni frátaldri. Fjöldi notenda jókst um tæp 9% á árinu, úr 272.391 í 296.230.

Súlurit 2
Notendur á hagstofa.is annarsvegar og PX vef Hagstofunnar hinsvegar.

Ný vísasíða

Evrópski tölfræðidagurinn var haldinn hátíðlegur sunnudaginn 19. október undir kjörorðinu: „Horfðu á staðreyndirnar“. Í tilefni dagsins opnaði Hagstofan nýja vísasíðu sem hýsir félagsvísa og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á vef heimsmarkmiðanna er að finna mælikvarða fyrir þau markmið um sjálfbæra þróun sem heimsbyggðin öll hefur skuldbundið sig til þess að uppfylla. Á nýjum vef félagsvísa er að finna fjölbreytta mælikvarða félagslegrar velferðar sem skiptast í 11 víddir. Félagsvísar gefa heildarmynd af stöðu félagslegrar velferðar innan hverrar víddar.

Vísatertan
Boðið var upp á vísatertur í tilefni af opnun vísasíðu hjá Hagstofunni.

Fréttaáskrift

Notendur geta gerst áskrifendur að einstökum efnisflokkum Hagstofunnar og fengið tilkynningar með tölvupósti þegar nýjar fréttatilkynningar eru gefnar út. Fjöldi áskrifenda í lok ársins var 975 og hafði þeim fjölgað um rúm 13% á árinu.

Talnaefni

Hagstofa Íslands gefur út mikið magn af talnaefni á íslensku og ensku á hverju ári og getur hver sem er nálgast talnaefnið og nýtt það til eigin nota.

Við árslok 2019 hafði veftöflum fjölgað um rúmlega 5% frá fyrra ári og voru þá í heildina orðnar 3.854.

Veftöflur eru flokkaðar eftir sömu fimm meginflokkum og aðalvefur Hagstofunnar: íbúar, samfélag, atvinnuvegir, efnahagur og umhverfi. Flestar töflur voru í flokknum samfélag en fæstar í flokknum umhverfi eins og sést á myndinni að neðan.

Meginflokkar
Dreifing veftaflna á meginflokka.

Samfélagsmiðlar

Mest notaði samfélagsmiðillinn á Íslandi er Facebook sem þýðir að opinberar stofnanir þurfa að vera virkar á þeim vettvangi til þess að auka sýnileika sinn og efla lýðræðislega virkni. Hagstofan setti 146 innslög inn á Facebooksíðu stofnunarinnar á árinu, eða að jafnaði tvö til þrjú innslög á viku. Áherslan var sem fyrr á vandað og fjölbreytt efni til þess að auka sýnileika stofnunarinnar og ná til sem flestra. Mikið var um efni sem fól í sér samanburð við önnur ríki sem meðal annars var fengið af vefsíðu og samfélagssíðu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Í lok ársins voru fylgjendur á síðu Hagstofunnar orðnir 1.028 en voru í lok síðasta árs 726.

Athyglisvert er að bera saman fjölda fylgjenda á Facebooksíðunni við fylgjendur hjá hinum norrænu hagstofunum en þá kemur í ljós að Ísland er í 2. sæti á eftir sænsku hagstofunni þegar fjöldi fylgjenda á hverja 100.000 íbúa landanna er skoðaður eins og myndin að neðan sýnir.

Fylgjendur
Fylgjendur á Facebooksíðum Norðurlandanna.

Útgáfa myndbands

Hagstofan sendi frá sér eitt myndband á árinu sem var dreift á vef stofnunarinnar, Twitter, Facebook og Youtube. Einnig var það sýnt í auglýsingatíma hjá RÚV.

Myndbandið var gefið út í lok ársins og var eins konar annáll þar sem farið var yfir helstu þróun í hagtölum á árinu. Myndbandið vakti mikla athygli og sáu um 30 þúsund manns það á Facebook. Rúmlega 50 þúsund manns sáu svo myndbandið á RÚV annan dag jóla.


Viðhorf til Hagstofunnar könnuð

Í febrúar og mars voru viðhorf almennings til Hagstofunnar könnuð af Gallup. Könnunin náði til 1.408 manns af öllu landinu og var svarhlutfallið 56%. Gengið var út frá því að mæla ímynd, viðhorf og traust. Skoðaðar voru breytingar frá árinu 2008 þegar sambærilegar mælingar fóru síðast fram og samanburður gerður við árlega mælingu Gallup á trausti til stofnana.

Traust til stofnana

Hagstofan er í 5. sæti yfir þær stofnanir í landinu sem mest traust er borið til. Samkvæmt könnuninni er Hagstofan með einkunnina 5 en hæst er gefið 7 eins og myndin að neðan sýnir. Mest traust er borið til Landhelgisgæslunnar sem var með 5,8 í einkunn.

Traust
Traust til stofnana.

Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ertu gagnvart Hagstofu Íslands

Mikill meirihluta landsmanna er jákvæður gagnvart Hagstofunni eða 64,2%. Rúmur þriðjungur, eða 34%, tók ekki afstöðu og aðeins 1,8% reyndust vera neikvæðir eins og myndin að neðan sýnir.

Jákvæðni/Neikvæðni
Jákvæðni/neikvæðni gagnvart Hagstofunni.

Traust til Hagstofunnar

Mikill meirihluti landsmanna ber mikið traust til Hagstofunnar eða 64,7%. Þriðjungur tók ekki afstöðu og 2,3% sagðist bera lítið traust til stofnunarinnar. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til Hagstofunnar hefur hækkað verulega frá könnuninni sem gerð var árið 2008 en þá var þetta hlutfall 49,7%.

Traust
Traust til Hagstofunnar.

Hversu vel eða illa gegnir Hagstofan hlutverki sínu?

Hér svöruðu 63,5% landsmanna að Hagstofan gegndi hlutverki sínu vel, þriðjungur tók ekki afstöðu og 3,7% voru þeirrar skoðunar að stofnunin gegndi hlutverki sínu illa. Hlutfall þeirra sem telja að stofnunin sinni hlutverki sínu vel hefur hækkað um tæp 15 prósentustig frá árinu 2008.

Hlutverkagegning
Hlutverk Hagstofunnar.

Upplýsingaþjónusta

Starfsfólk samskipta- og miðlunardeildar svarar fyrirspurnum og leiðbeinir notendum um vef Hagstofunnar. Erindum frá frá notendum fer fjölgandi með ári hverju.

Hægt er að hafa samband við upplýsingaþjónustuna á ýmsa vegu en langoftast berast fyrirspurnir í gegnum síma, með tölvupósti eða í gegnum vefform.

Gagnasöfnun Mannauður