Mannauður
Mannauður

Í lok árs 2019 störfuðu 118 fastráðnir starfsmenn hjá Hagstofunni í 111,45 fullum stöðugildum, 67 karlar og 51 kona. Meðalaldur starfsmanna var 47 ár og höfðu þeir starfað að meðaltali í 8,7 ár á Hagstofunni. Hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna var 89% í lok árs 2019 og jókst hlutfall háskólamenntaðra á Hagstofunni á milli ára líkt og þróunin hefur verið undanfarin ár. Auk fastráðinna starfsmanna störfuðu hjá Hagstofunni á árinu alls 59 lausráðnir spyrlar sem unnu um 8,6 ársverk við innsöfnun gagna.

Starfsfólk - fjöldi og skipting
Fjöldi starfsmanna og kynjaskipting.

Fræðsla

Ýmis konar fræðsla stóð starfsfólki til boða á árinu. Má þar helst nefna fjölmiðlanámskeið, námskeið um landupplýsingakerfi og námskeið í notkun tölfræðiforritsins R í hagskýrslugerð auk þess sem nýir starfsmenn fengu sérstaka fræðslu um Hagstofuna og starfsemi hennar. Mikið var um innanhússkynningar eins og undanfarin ár. Deildir Hagstofunnar kynntu starfsemi sína og verkefni fyrir samstarfsfólki auk þess sem haldið var Eurovision hackathon þar sem starfsmenn unnu áhugaverðar upplýsingar upp úr gögnum um fyrri söngvakeppnir evrópskra sjónvarpsstöðva.

Bogi Ágústsson
Hinn þjóðkunni Bogi Ágústsson á fjölmiðlanámskeiði sem haldið var á Hagstofunni.

Félagslíf

Starfsmannafélag Hagstofunnar stóð fyrir ýmsum uppákomum árið 2019. Í byrjun árs var haldin heilsuvika þar sem ýmislegt var gert til þess að bæta og viðhalda heilsu starfsfólks. Starfsfólki stóð til boða að fara í heilsumælingu og nudd auk þess sem einkaþjálfari kom á staðinn og leiðbeindi starfsfólki um teygjur og einfaldar æfingar sem hægt er að gera á vinnutíma. Í febrúar bauðst starfsmönnum að setjast á skólabekk Vínskólans þar sem þeir lærðu að para saman snittur og vín. Var námið hugsað sem upphitun fyrir árshátíð Hagstofunnar sem haldin var í mars.

Haldið var í hina árlegu haustferð föstudaginn 4. október. Ferðadagurinn byrjaði með sameiginlegum morgunverði á 4. hæðinni. Síðan var haldið austur fyrir fjall með viðkomu á Hvolsvelli þar sem snæddur var hádegisverður.

Haustferð
Haustferð

Dagskráin yfir daginn bauð upp á fjallgöngu á Þríhyrning á meðan að aðrir fóru í rútuferð um svæðið undir leiðsögn Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Seinna um daginn var hóphittingur á ónefndum leynistað sem bara þeir sem fóru í ferðina hafa vitneskju um.

Deginum var lokað með kvöldverði áður en haldið var til Reykjavíkur um kl. 22:00. Ferðin þótti heppnast vel í alla staði.

Á starfsárinu skipaði árshátíðin stóran sess. Þetta árið var hún haldin í Hörpu og þótti takast með afbrigðum vel. Jólaboð hagstofustjóra fór fram í desember að venju og var það einstaklega vel sótt.

Spilakvöld
Spilakvöld
Árshátíð
Árshátíð

Af öðrum viðburðum sem starfsmannafélagið stóð fyrir má nefna jólapeysudaginn, jólaföndur og jólaball fyrir starfsfólk og ættingja. Í apríl bauð starfsmannafélagið starfsmönnum upp á páskaegg. Að lokum má nefna ýmsa tilfallandi viðburði svo sem spila- og pókerkvöld að ógleymdum reglulegum morgunverðum og kökuboðum.

Miðlun til notenda Skipurit