Hagstofa Íslands var rekin með 20,8 m.kr. tekjuhalla árið 2019, en 105 m.kr. tekjuafgangur var árið áður. Breyting á afkomu skýrist einkum af hagræðingarkröfu og lækkun sértekna auk hækkunar á nánast öllum útgjaldaliðum, þar sem verkefni sem frestuðust tímabundið árið áður fóru í fullan rekstur.
Heildartekjur Hagstofu Íslands árið 2019 námu 1.613 m.kr. og drógust saman um 0,12% frá fyrra ári. Framlag úr ríkissjóði hækkaði úr 1.379 m.kr. í 1.428 m.kr., eða um tæplega 4%. Þar af nam fjárfestingaframlag 26,4 m.kr. og tekjufærsla á móti afskriftum 16,9 m.kr. Sértekjur Hagstofunnar námu 185,3 m.kr. sem er 21,6% lækkun frá fyrra ári, en lækkunina er einkum að rekja til þess að tekjur vegna styrkja drógust saman.
Skipting sértekna | Tekjur |
---|---|
Þjónustusamningar vegna kjaratölfræði | 74 m.kr. |
Seld þjónusta | 46,9 m.kr. |
Styrkir vegna samninga við Eurostat | 32,7 m.kr. |
Sala hagskýrslna og aðrar tekjur | 31,7 m.kr. |
Heildargjöld ársins námu um 1.634 m.kr. með afskriftum, en gjöld Hagstofunnar jukust um 124,4 m.kr. á milli ára, eða um tæp 8%. Stærstu útgjaldaliðir Hagstofunnar eru laun og launatengd gjöld. Launakostnaður hækkaði um 100 m.kr. á milli ára, eða sem nemur tæplega 8%.
Laun og launatengd gjöld voru 83% af heildarútgjöldum stofnunarinnar. Húsnæðiskostnaður er annar stærsti útgjaldaliðurinn og nam hann 6,6%. Þriðji stærsti útgjaldaliðurinn voru kaup á þjónustu sem nam tæplega 5% af heildargjöldum.
Skipting gjalda | Kostnaður |
---|---|
Laun og launatengd gjöld | 1.362 m.kr. |
Húsnæðiskostnaður | 107,7 m.kr. |
Aðkeypt þjónusta | 79,5 m.kr. |
Ferðakostnaður, námskeið og fundir | 33,7 m.kr. |
Almenn rekstrargjöld | 23,4 m.kr. |
Afskriftir | 16,9 m.kr. |
Verkkaup | 10,4 m.kr. |
Fjármagnsgjöld | 0,4 m.kr. |
Fjárfestingaframlag ársins í fjárlögum var 26,4 m.kr. Eignakaup eru nú færð til eignar og afskrifuð yfir eignartímann. Kaupverð varanlegra rekstrarfjármuna nam tæplega 25,9 m.kr. og afskriftir 16,9 m.kr.